Ólífrænn krúttleiki

Wall-E er óttalegt grey Það er fyndið hversu auðvelt er að vekja aumkunartilfinningar hjá fólki með einföldum vélum. Ég hefur tekið eftir því hjá sjálfum mér og öðrum sem fylgjast með róbótaþróun, og það er sérstaklega undirstrikað með nýju Pixar-myndinni Wall-E. Aðalsöguhetja Wall-E er lítill ruslahaugsróbóti, sem pakkar rusli saman í kubba og raðar þeim upp. Hönnun hans er mjög skemmtileg, hann er með tvær stuttar og litlar hendur, og augu sem að hluta líkjast sjónauka í tveim pörtum, en einnig drjúpandi augum daprar manneskju. Með hegðun og hreyfingu gæða svo höfundar myndarinnar hjá Pixar Wall-E eftirminnilegum, lifandi persónuleika.

En hvað þarf til að gera eitthvað krúttlegt? Venjulegu fólki finnst hversdagsleg safapressa ekkert krúttleg, eða ryksuga. Tölvur eru yfirleitt bara taldar klunnalegar og ljótar, nema í örfáum tilfellum. Þegar ég hugsa betur út í þessi nokkru tilfelli þar sem tölvur eða tæki þykja krúttleg, þá finnst mér eins og verið sé að hugsa um tækið sem sofandi, krúttlega veru.

Um leið og hlutur er gæddur lífi og sjálfstæðri hegðun, hefur hann tækifæri til að vera krúttlegur. Það er eins og það þurfi bara að setja ,,geranda" í hlut, þá finnur fólk sjálfkrafa til aumkunar með honum. Ef við sjáum kaffivél bila við uppáhellingu, opnast og baunirnar hrynja út, þá finnst okkur það ekki krúttlegt. En ef við sjáum kaffivél sem virðist hafa huga reyna að hella upp á kaffi en ekki takast það sökum of lélegrar útlimastjórnunar, þá finnst okkur það allt í einu krúttlegt, og jafnvel fyndið.

Þetta finnst mér allt saman ógnaráhugavert.

Ég kannast þó við nokkur tilfelli þar sem tæki sem flestir myndu ekki líta á sem persónur hafa orðið það í tengslum við eigendur sína. Dæmi um það þegar gömul bifreið er farin að láta illa að mörgu leyti, hitt og þetta er kannski farið að gefa sig, og eigandi hennar lítur á það sem eins konar persónukvilla, eða sérvisku. Margir tala bókstaflega um það að bíllinn þeirra, tölvan eða kaffivélin hafi mjög mikinn persónuleika. Í þeim aðstæðum hef ég orðið var við það að ákveðin bilun, eða erfiðleikar, gefa tækinu krúttlegt yfirbragð, þar sem þeir eru túlkaðir sem misheppnuð tilraun til að framkvæma eitthvað, rétt eins og hjá róbótakaffivélinni sem ég nefndi að ofan.

Gerum við þetta bara við hluti sem hafa getu til að hreyfa sig sjálfir? Persónugerum við líka úr? Já, ég held það. En reiðhjól? Það hljómar ekki eins sennilega.

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Jú, Möwe-reiðhjól Þórarins eldjárns í samnefndu kvæði hans : )

Kristján Hrannar Pálsson, 15.8.2008 kl. 17:50

2 Smámynd: LegoPanda

Haha :D

Í ljóðum getum við auðvitað persónugert hvað sem er - en við eigum erfitt með að persónugera reiðhjól ósjálfrátt, myndi ég halda.

LegoPanda, 19.8.2008 kl. 03:00

3 identicon

Þessi eiginleiki okkar (sem væri kannsk hægt að lýsa sem framhjá skoti) að finnast "klaufagangur" véla og eða dýra "krúttlegur" hlýtur að vera sprottin frá þeirri staðreynd að við erum erfðafræðilega þróuð til að annast börn okkar og fylgjast með þeim taka (oft klaufaleg til að byrja með) skref út í lífið.

SG (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 12:53

4 Smámynd: LegoPanda

Já, við getum eiginleg agefið okkur það. Það sem heillar mig svona mikið við það, hins vegar, er hversu auðveldlega þessi tilfinning yfirfærist á eitthvað sem er augljóslega ekki mannvera eða einu sinni lífvera. Þessi tilfinning virðist taka tillit til mjög einfaldrar hegðunar. Kannski má líkja því við það hversu auðveldlega við sjáum fegurð í dauðum eftirlíkingum, eins og styttum og málverkum - það er formið sem skiptir máli, ekki að það sé raunveruleg manneskja sem við erum að horfa á.

LegoPanda, 11.10.2008 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband